Bókun fulltrúa skólastjóra 4.febrúar 2015

Ritað .

Áheyrnarfulltrúar kennara, skólastjórnenda, foreldra grunnskólabarna, foreldra leikskólabarna og forstöðumanna frístundamiðstöðva óska bókað:

Í Reykjavíkurborg er unnið eftir stefnunni „Skóli án aðgreiningar“ sem er metnaðarfull og góð stefna. Til þess að sú skólastefna gangi upp þarf hins vegar að tryggja stuðning og þjónustu við öll börn. Í dag er staðan þannig að þjónusta og stuðningur við börn með hegðunarvanda, kvíða, tilfinningavanda, geðræn vandamál, málhömlun, vímuefnavanda og þroskahamlanir er engan veginn viðundandi. Biðlistinn á BUGL er meira en ár, biðlistinn hjá Talþjálfun Reykjavíkur er 12-18 mánuðir og dæmi eru um að börn í ákveðnum hverfum borgarinnar þurfi að bíða í 2 ár eða meira eftir greiningum og þjónustu.  Á meðan beðið er eftir þjónustunni vex vandinn og verður í sumum tilfellum óyfirstíganlegur fyrir bæði skólann og heimilin.

Í þriðju grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: 

Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

Við skorum á Reykjavíkurborg og ríki að bregðast nú þegar við og uppfylla ákvæði laga og Barnasáttmálans um stuðning og þjónustu við börn í vanda. Hvert og eitt barn er dýrmætt og á aðeins eina æsku,  þann tíma sem barn er án greiningar og/eða þjónustu er erfitt að bæta upp síðar.

Það sem bæta þarf er að: uppræta biðlista og grípa fyrr inn í mál, áður en vandinn er orðinn óyfirstíganlegur, auka sérfræðiþjónustu í skólum, styðja betur við fjölskyldur og fjölga meðferðarúrræðum fyrir börn í miklum vanda.

Ljóst er að skortur á þjónustu við eitt barn getur gert skólagöngu þess og einnig barna í sömu bekkjardeild eða skóla óbærilega.