Bókun á 57. fundi skóla- og frístundaráðs 9.4 .2014

Ritað .

Bókun á 57. fundi skóla- og frístundaráðs 9.4 .2014

Fulltrúi skólastjórnenda í Reykjavík vill koma því á framfæri að skólastjórnendur í Reykjavík telja að það fjármagn sem skólunum er úthlutað til að vinna eftir stefnu um skóla án aðgreiningar sé langt frá því að vera nægilegt. 7. mars síðastliðinn stóð Félag skólastjórnenda í Reykjavík fyrir umræðufundi um skóla án aðgreiningar og kom það mjög skýrt fram á fundinum að stjórnendur eru ánægðir með stefnuna en finnst vanta fjármagn og úrræði til að fylgja stefnunni eftir í daglegu starfi. Rætt var um að langur biðlisti væri í þau úrræði sem eru í boði, s.s. ráðgjöf frá Brúarskóla, greiningar, sálfræðiráðgjöf og pláss á þeim deildum sem sinna nemendum með sérþarfir. Einnig var rætt um að svigrúm vantar til þess að ráða fleira fagfólk s.s. þroskaþjálfa, talkennara og fleiri starfsmenn með sérhæfingu til að sinna þeim fjölbreytta nemendahópi sem skólarnir eru að sinna. Í dag eru stuðningsfulltrúar of mikið með börnin sem þurfa mestu þjónustuna. Bent er á að það vantar úrræði fyrir börn á aldrinum 6 til 8 ára sem rekast illa innan skólans vegna hegðunar erfiðleika eða annarra erfiðleika. Þetta stangast á við hugmyndir um snemmtæka íhlutun.